STAK

Það er með stolti sem við segjum ykkur frá fjölgun í Mengisfjölskyldunni.
Þann 26. nóvember opnaði STAK að Hverfisgötu 32 í Reykjavík. STAK er verkefnarými sem er nokkurs konar hliðarsjálf Mengis og hugsað til þess að hýsa frumlega, fjölbreytta og fróðlega viðburði sem eiga sér lengri líftíma en eina kvöldstund eins og tíðkast jafnan í Mengi. Nú í desember er í STAK hönnunarinnsetning með jólaívafi eftir Elísabetu og Hrafnhildi Jónsdætur sem kallast Hverfisgarðurinn. Hverfisgarðurinn er nokkurs konar óður til þeirra fjölmörgu hverfisgarða sem finna má í Reykjavík en þeir geyma í senn sögu hönnunar, garðyrkju og lista. Samhliða Hverfisgarðinum hefur verið sett upp tímabundin (pop-up) verslun í STAK þar sem finna má ýmsa hönnunarvöru sem er tilvalin til þess að lífga upp á jólastemninguna og í jólapakkann. Hverfisgarðurinn er opinn fram að jólum; þriðjudaga til sunnudaga 12:00 - 18:00.

Í tilefni 8 ára afmælis MENGIS um næstkomandi helgi verður í Hverfisgarðinum í STAK sölusýning á veggspjöldum eftir Ingibjörgu Birgisdóttur, Orra Jónsson og Nicolas Kunysz. Veggspjöldin voru gerð á fyrsta starfsári MENGIS og sýnir hvert þeirra dagskrá eins mánaðar í MENGI, frá desember 2013 til desember 2014. Sýningin opnar fimmtudaginn 9. desember og stendur til 12. desember.
Frekari upplýsingar um sýninguna má finna með því að smella hér.

Frá 13. janúar 2022 til 27. febrúar 2022 mun STAK hýsa opna vinnustofu Orra Jónssonar og Davíðs Hörgdal Stefánsson en þeir vinna um þessar mundir að bókverki og heimildarmynd um tónskáldið Jóhann Jóhannsson sem áætlað er að komi út undir lok næsta árs. Verkefnið ber titilinn The Creative Process of Jóhann Jóhannsson" og gefst gestum á opnu vinnustofunni tækifæri til þess að kynnast listamanninum Jóhanni Jóhannssyni á einstakan hátt í gegnum urmull af gögnum sem þeir Orri og Davíð hafa sankað að sér við vinnu sína að verkefninu. Frekari upplýsingar um opnu vinnustofuna verða sendar út þegar nær dregur opnun hennar.

Til þess að fylgjast betur með starfssemi STAKS hvetjum við ykkur kæru listunnendur að fylgja STAK á Facebook síðu þess á https://www.facebook.com/stakcreative.

Ragnheiður Elísabet